Thank you

*

Vörur og vörusýningar

Nýsköpun í fyrirrúmi á Whitefish ShowHow

Marel bauð til þriðja Whitefish ShowHow viðburðarins í Kaupmannahöfn þann 28. september 2017. Á þessum einstaka viðburði hittust fiskframleiðendur alls staðar að úr heiminum en þar gafst þeim færi á að kynna sér nýjustu tækni, hlusta á fyrirlestra og kynnast fólki sem starfar á sama sviði.

Yfir 150 manns frá 30 löndum komu til Kaupmannahafnar til þess að sjá kynningu á vinnslulausnum í fremstu röð, líkt og FleXicut línuna með nýjum pökkunarvélmennum. Áður en sýningarsalurinn opnaði deildu þrír gestafyrirlesarar reynslu sinni af ólíkum sviðum fiskvinnslu og lögðu þeir sérstaka áherslu á framtíðarþróun iðnaðarins.


BREYTT MARKAÐSUMHVERFI

Dr. Jón Þrándur Stefánsson, þróunarstjóri Markó Partners og ritstjóri Seafood Intelligence Report, fjallaði um hvernig hvítfiskmarkaðurinn er að breytast, einkum hvað varðar vöruflæði og það hvernig fyrirtæki marka sér stöðu innan greinarinnar.

Jón Þrándur ræddi jafnframt samþjöppun og samkeppnishæfni í samhengi við það hvað mætti læra af öðrum atvinnugreinum, svo sem fiskeldi. Þá spáði hann fyrir um framtíðarþróun og áskoranir og nefndi sérstaklega vald smásalanna og það hvernig fiskvinnslur breyta virðiskeðjunni um leið og þær aðlaga sig að stöðugum breytingum innan greinarinnar.
 

LÆRT AF LAXINUM

Leif Inge Karlsen, stofnandi og fyrrum forstjóri Lerøy Hydrotech, miðlaði af yfirgripsmikilli reynslu sinni og þekkingu af fiskeldi og framleiðslu. Hann lagði áherslu á hvernig hvítfiskvinnslur gætu lært af því hvernig laxvinnsluiðnaðurinn hefði aukið gæði afurða og gæti endurtekið það með afurðir úr villtum hvítfiski. Hann talaði bæði almennt en gaf jafnframt dæmi, t.d. um meðferð fisksins, og útskýrði hvernig ,,hvítfiskiðnaðurinn væri nú farinn að herma eftir laxfiskiðnaðinum.” Hann líkti þessu við sambærilega þróun sem átti sér stað fyrir um 60 árum síðan þegar harðfiskframleiðendur kepptu við þá sem framleiddu ferskfiskafurðir.

Leif sagðist bjartsýnn á framtíð hvítfiskvinnslu en lauk máli sínu með þessum orðum: ,,Hvítfiskiðnaðurinn verður að auka gæði og tryggja fiskvinnslum framboð vörunnar, ekki aðeins á vissum árstímum heldur allt árið um kring.”
 

NÝTT ER BEST

Jorge J. Alonso Ygea, markaðsstjóri Scanfisk Seafood, miðlaði af reynslu Scanfisk af því að ná betri árangri en samkeppnisaðilar sínir með því að nýta stöðugt nýjustu tækni og með því að fjárfesta í rannsóknum, þróun og nýsköpun. ,,Nýtt” var lykilorðið í kynningu Jorges. Hann sagði að nýsköpun snérist um meira en það að hafa nýjustu og bestu aðstöðuna.

Jorge segir að nýsköpun þurfi að ná yfir allt ferlið; frá vöruþróun til að leita leiða til að minnka orkunotkun, til þess að búa til nýjar vörur úr sama hráefninu með því að skera það á nýjan hátt og bjóða upp á nýtt bragð, nýjar pakkningar og nýtt vörumerki. Þau fyrirtæki sem ná lengst eru því þau sem nýta tækniframfarir í skurði, skömmtun, marineringu og pökkun til hins ýtrasta.
 

SJÁLFVIRKNI OG HÁTÆKNI Í FRAMLEIÐSLUNNI

Næst heimsóttu gestir viðburðarins sýningarsalinn þar sem hvarvetna mátti sjá að framtíðarsýn Marel, um nær alsjálfvirkt framleiðsluferli, hafði litið dagsins ljós. Nú líður að því að viðskiptavinir Marel geti farið að nota framleiðsluferli þar sem mannshöndin kemur ekki nálægt fiskinum eftir að búið er að forsnyrta hann.

Ný útgáfa FleXicut línunnar vakti mikla athygli, einkum pökkunarvélmennin sem gera ferlið enn sjálfvirkara en áður, sem og nýja snyrtilínan. Sjálfvirkni beinaskurðar með FleXicut eykur framleiðni og bætir alla meðhöndlun vörunnar sem eykur þar með hagnað. Með þessum nýju viðbótum verður ferlið enn sjálfvirkara eins og sást svo vel á vörusýningunni.

Meðal þess sem  FleXicut-kerfið á sýningunni innihélt var sjálfvirk beinaleit með SensorX en vélin gegnir hlutverki sjálfvirkrar gæðaeftirlitsstöðvar. Einar Hlöðver Sigurðsson, vörustjóri hjá Marel, sagði að fólk hefði verið sérstaklega hrifið af því hvernig SensorX var sett inn sem hluti af flæði vinnslulínunnar. 

,,Þegar SensorX er hluti af framleiðsluferlinu er hægt að tryggja beinlausan fisk sem veitir mikið samkeppnisforskot,” sagði hann. ,,Það er jafnframt gott dæmi um áherslu okkar á að bjóða upp á nýjar leiðir til þess að gera hlutina. Þessi viðburður gefur viðskiptavinum okkar tækifæri til að skoða það úrval lausna og tækja sem við bjóðum upp á.”

 

STUTT HEIMSÓKN Í ÍSLENSKA FISKVINNSLUSTÖÐ

Gestir gátu einnig gengið í gegnum tölvugert módel af hvítfiskvinnslu Vísis í Grindavík. Þessi sýndarveruleikaupplifun gefur einstaka innsýn í sjálfvirka hvítfiskvinnslu með FleXicut vinnslukerfi. FleXicut vatnsskurðarvélin er frábært dæmi um áherslu Marel á að vera í fararbroddi í nýsköpun og tækni.
 

FULLVINNSLA AFURÐANNA

Úrval þess búnaðar sem Marel hefur þróað fyrir frekari vinnslu var einnig kynnt á viðburðinum. Karin Verstraaten, matvælafræðingur hjá Marel, útskýrir: ,,Við erum með RotoCrumb til að framleiða vörur með brauðmylsnu og voru gestir á sýningunni hrifnir af því hve jafnt vélin dreifði brauðmolunum og hvernig hún notaði jafnvel stóra mola sem hentar afar vel fyrir fisk.

Meðal annarra kerfa til fullvinnslu afurða sem voru til sýnis má nefna ValueSpray sem dreifir kryddlög. Eftir að varan hefur verið marineruð er henni einfaldlega pakkað í pakkningar frá Cryovac® og er hún þá tilbúin í örbylgjuofninn.
 

FULLKOMIÐ FRAMLEIÐSLUEFTIRLIT

Samhliða sýningu á tækjabúnaðinum gátu sýningargestir fylgst með gagnavinnslu á skrifstofu Innova Food Processing Software í sýningarrýminu. Áreiðanleiki gagna verður æ mikilvægari þáttur af nútíma hátækniframleiðslu og fyrir fiskvinnslufyrirtæki sem vilja vera samkeppnishæf er það að geta rakið og greint upplýsingar um framleiðsluna lykilatriði. Á viðburðinum gátu gestir séð hvernig upplýsingar verða til í rauntíma og hvernig þessar upplýsingar eru forsenda fyrir því að ná yfirsýn yfir framleiðsluna.

Whitefish ShowHow-sýningin er haldin í Progress Point, glæsilegri sýningar- og þjálfunaraðstöðu Marel í Kaupmannahöfn.

Tengiliður við fjölmiðla er Stella Kristinsdóttir, markaðsstjóri Marel Fish: stella.kristinsdottir@marel.com

 

Myndir frá Whitefish ShowHow 2017