Thank you

*

Samfélagið

Marel Supply Train kom í mark

26. júní 2017

Marel hjólagarparnir okkar voru duglegir á ferð sinni í kringum landið í WOW cyclothon hjólreiðakeppninni sem fór fram í síðustu viku.

Strákarnir lentu í ýmsum ævintýrum á leiðinni en m.a. þurftu þeir að leggja í viðgerðir á kerrunni sem gaf undan í öllum hamaganginum. Þrátt fyrir þá uppákomu þá voru þeir á góðum tíma og komu í mark um kl. 16:00 síðastliðinn föstudag í Hafnarfirði.

Aðstæður í keppninni voru ekki auðveldar í ár og þurftu liðin að hjóla í mikilli rigningu og roki. Það er því frábær árangur að hafa lagt 1.358 km að baki og tóku starfsmenn Marel að sjálfsögðu vel á móti liðinu okkar í endamarkinu til að fagna með þeim.

Marel liðið í ár samanstóð af einvala liði keppenda sem starfa saman í framleiðslu, birgðahaldi og aðfangastýringu Marel á Íslandi og í Hollandi. Þetta er í fyrsta sinn sem keppendur í WOW Cyclothon liði Marel koma frá tveimur starfsstöðvum. Liðið kallar sig Marel Supply Train en í hópnum eru Hubert Rulkens, Geert van Tilburg, Örvar Kristjánsson, Kristinn Óli Hallsson, Andre Borghans, Haukur Magnússon, Sjoerd van der Heijden, Tómas Örn Sigurbjörnsson, Patrick Karl Winrow og Guðmundur Arason.

Markmiðið með þátttöku er fyrst og fremst að safna áheitum fyrir gott málefni, styrkja samstarfið og hafa gaman af. WOW hjólreiðakeppnin tengir fólk saman í krefjandi verkefni sem reynir á bæði andlegan og líkamlegan styrk og ekki síst liðsheildina. Þetta er í þriðja sinn sem að hópur frá Marel tekur þátt en árið 2013 varð fjögurra manna lið Marel í 3.-6. sæti í keppninni og í fyrra tóku tvö tíu manna lið þátt með góðum árangri.

WOW hjólreiðakeppnin var haldin til styrkar Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu í ár sem mun úthluta söfnunarfé til björgunar- og slysavarnarsveita landsins. Marel Supply Train safnaði hátt í 250 þúsund krónum með þátttöku sinni en allt í allt söfnuðust rúmar 20 milljónir fyrir Landsbjörgu að þessu sinni.

Marel tekur þátt í WOW cyclothon