Thank you

*

Samfélagið

Marel styrkir Team Spark í fimmta sinn

29. júní 2018

Nýjasti rafmagnskappakstursbíll Team Spark, TS18, afhjúpaður

Marel styrkir Team Spark, lið Háskóla Íslands í alþjóðlegri hönnunar- og kappaksturskeppni fyrir nemendur á háskólastigi, í fimmta sinn í ár.

Nýjasti rafmagnskappakstursbíll Team Spark, TS18, var afhjúpaður við athöfn á Háskólatorgi á fimmtudag.

Marel hefur verið aðalstyrktaraðili liðsins frá árinu 2014 en liðsmenn fá einnig stuðning frá Marel við að framleiða íhluti í bílinn og hafa aðgang að þekkingu og reynslu starfsmanna í gegnum samstarf við ýmsar deildir fyrirtækisins. Í vetur hefur liðið meðal annars fengið aðstoð við að fræsa, framleiða fjöðrunarkerfið og við rafmagnsíhluti.

Helsta nýsköpun TS18 bílsins í ár er hönnun burðarvirkisins en bílinn er ekki hefðbundinn grindarbíll heldur hefur hann svokallað sjálfberandi burðarvirki. Marín Lilja Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri liðsins í ár, segir að hönnun og framleiðsla burðarvirkisins hafi verið mesta áskorunin. „Við hlupum oft á vegg í því ferli, en okkur tókst þetta að lokum,“ segir Marín.
 

Keppnisandi ríkjandi hjá Team Spark líkt og hjá Marel

Við höfum átt gott samstarf við Team Spark enda fyrirmyndarverkefni sem endurspeglar vel þær forsendur sem þurfa að vera til staðar frá hugmynd til nýsköpunar. Það er frábært að sjá hvað það ríkir mikill frumkvöðlaandi meðal hópsins, samheldni, áræðni og metnaður. Við erum stolt af hópnum og óskum honum velfarnar á þessu keppnisári.

– Nótt Thorberg, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi

Í ár taka fjölmargir nemendur í raunvísindagreinum háskólans þátt í liðinu sem telur um 40 nemendur en áður hafa verkfræðinemar skipað flest sæti liðsins.

Nýjasti rafmagnskappakstursbíll Team Spark, TS18, afhjúpaður


Dýrmæt reynsla

Maður fær að spreyta sig á verkefni við að framleiða vöru frá grunni. Það er mikilvæg reynsla ásamt því að eiga samskipti við fyrirtæki og vinna saman í hóp. Við höfum lent í ýmsu og það hafa sannarlega verið bæði erfiðir tímar en líka mjög skemmtilegir tímar.

– Marín Lilja, framkvæmdastjóri Team Spark 2018
 

Fjöldi þátttakenda í Team Spark hafa komið til vinnu hjá Marel í gegnum keppnina. Að svo stöddu starfa sex liðsmenn Team Spark hjá Marel í hinum ýmsu deildum, meðal annars við vöruþróun, vélahönnun, upplýsingatækni, framleiðslustýringu og framleiðslu.

Team Spark er klárlega besta tækifærið innan HÍ til þess að takast á við verkefni þar sem þekking úr náminu nýtist í framkvæmd. Þátttaka í Team Spark er einnig frábær leið til þess að fá innsýn í fyrirtæki eins og Marel sem eru helstu styrkaraðilar keppnirnar.

– Sólrún Traustadóttir, liðsmaður Team Spark 2016-2017 og sumarstarfsmaður hjá Marel

Í ágúst heldur liðið til Barselóna með bílinn þar sem háskólalið allsstaðar að úr heiminum munu keppa í ýmsum akstursgreinum á Formúla 1 kappakstursbraut.