Thank you

*

Fjárfestafréttir

Marel fagnar 25 árum í Nasdaq kauphöllinni á Íslandi

20. desember 2017

Í ár eru 25 ár frá því hlutabréf Marel voru skráð og tekin til viðskipta í Kauphöllinni. Trú hluthafa á félaginu gefur okkur mikinn styrk í áframhaldandi sókn og virðissköpun fyrir hluthafa, viðskiptavini og íslenskt samfélag.


Verðmætasta félagið í Kauphöllinni

Marel er í dag verðmætasta félagið í Kauphöllinni. Hluthafar Marel eru yfir tvö þúsund talsins og um 94% þeirra eru íslenskir. Í dag er markaðsverðmæti Marel um 230 milljarðar króna, eða sem jafngildir um 30% af verðmæti allra skráðra hlutafélaga á Íslandi.

Á tímamótum sem þessum er gaman að rifja upp sögulegt samhengi. Fyrsta hlutafjárútboð Marel var í desember 1991. Þá voru boðnir út 15 milljón hlutir á verðinu 1,85 kr. per hlut. Söluverðið var því um 28 milljónir króna. Fyrstu viðskipti með hlutabréf Marel eftir skráningu í Kauphöllinni í júní 1992, voru á genginu 1,00 kr. per hlut. Markaðsvirði félagsins eftir fyrstu viðskipti í Kauphöll voru um 100 milljónir króna. Í dag eru útgefnir hlutir um 736 milljónir á verðinu 314 kr per hlut.


25 ára skráningarafmæli, 25 ára starfsafmæli og 25 ára starfsmenn

Til að fagna skráningarafmælinu var fyrrverandi stjórnarmönnum, stjórnendum og stærstu hluthöfum boðið í móttöku í höfuðstöðvum félagsins í Austurhrauni, Garðabæ.

Eftir stuttar tölur frá forstjóra Marel og forstjóra Kauphallarinnnar fengu Tómas G. Guðjónsson, starfsmaður til 25 ára, og Hlynur Ævar Pétursson, 25 ára gamall starfsmaður þann heiður að hringja kauphallarbjöllunni. Undir lokin var gestum boðið að ganga um fyrirtækið og upplifa öfluga starfsemi Marel í verki en skoðuðu bæði framleiðslu á tækjabúnaði og nýtt rými vöruþróunar.


Frá 45 starfsmönnum í 5.100 starfsmenn í 32 löndum

Skráning hlutabréfa Marel í Kauphöllinni 1992 var gæfuspor til frekari framþróunar og vaxtar félagsins. Með stöðuga nýsköpun að leiðarljósi, hefur Marel umbreyst úr sprotafyrirtæki í alþjóðlegt hátæknifyrirtæki. Marel er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúkling, kjöti og fiski.

Árlega fjárfestir Marel um 7,5 milljörðum króna í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu.

Við skráningu árið 1992 voru starfsmenn 45 talsins og velta félagsins 410 milljónir króna. Í dag starfa 5.100 starfsmenn í 32 löndum hjá Marel sem velti um 130 milljörðum króna árið 2016. Yfir sama tímabil hafa tekjur félagsins vaxið um 23% að jafnaði árlega. Marel stefnir á 12% árlegan meðalvöxt tekna næstu 10 árin með innri og ytri vexti. Með áframhaldandi markaðssókn og nýsköpun ætlar Marel að vaxa hraðar er markaðurinn en gert er ráð fyrir að markaðsvöxtur nemi 4–6% á næstu árum. Að sama skapi er áætlað að áframhaldandi traustur rekstur og öflugt sjóðstreymi geti stutt við 5–7% ytri meðalvöxt á ári.


Stór tækifæri til vaxtar

Marel starfar á vaxtarmarkaði. Á hverju ári flytja um 60 milljónir manna í heiminum úr sveit í borg. Millistéttin fer vaxandi, sérstaklega í Asíu, Afríku og S-Ameríku, með tilheyrandi aukinni eftirspurn eftir tilbúinni matvöru. Matvælavinnsla þarf að aðlagast þessu og vera hagkvæm, örugg og sjálfbær. Stærð matvælamarkaðarins með dýraprótein er um 1.200 milljónir evra og vex um 1–2% á ári. Markaðurinn fyrir tækjabúnað til matvælavinnslu er um 10 milljarðar evra með þjónustu og varahlutum.

 

Marel fagnar 25 árum í Nasdaq kauphöllinni á Íslandi