Thank you

*

Fréttir

Forsætisráðherra Danmerkur heimsækir höfuðstöðvar Marel

30. nóvember 2018

Danski forsætisráðherrann, Lars Løkke Rasmussen, heimsótti höfuðstöðvar Marel á Íslandi þann 30. nóvember ásamt fylgdarliði.

Forsætisráðherrann hitti forstjóra Marel, Árna Odd Þórðarson, og framkvæmdastjóra Marel á Íslandi, Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, og fékk leiðsögn um starfsstöðina í Garðabæ.

Heimsóknin í Marel er hluti af heimsókn forsætisráðherra Danmerkur vegna hátíðarhalda í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands.

Forsætisráðherra Danmerkur heimsækir höfuðstöðvar Marel

Í leiðsögn um höfuðstöðvar Marel í Garðabæ fékk Lars innsýn í starfsemi Marel á heimsvísu, þá sérstaklega í Danmörku.

Hjá Marel í Danmörku starfa um 600 starfsmenn á fjórum starfsstöðvum við hönnun, framleiðslu, sölu og þjónustu á hátæknilausnum og hugbúnaði fyrir viðskiptavini í kjúklinga-, kjöt- og fiskvinnslu.


Marel í Danmörku

Marel hefur sterk tengsl við Danmörku þar sem félagið rekur þrjár starfsstöðvar auk sýningarhúss fyrir viðskiptavini.

Á starfsstöð Marel í Árósum starfa um 250 starfsmenn í öflugri nýsköpunardeild auk 250 starfsmanna við framleiðslu tækjabúnaðar. Í Støvring og Holbæk starfa svo um 320 starfsmenn við sölu og þjónustu til viðskiptavina Marel um allan heim.

Marel opnaði sitt eigið sýningarhús, Progress Point, í Kaupmannahöfn árið 2013. Síðan þá hafa rúmlega 11.000 viðskiptavinir og gestir heimsótt Progress Point til þess að skoða hátæknibúnað og hugbúnað frá Marel við aðstæður sem líkja eftir raunverulegri matvælaframleiðslu.

Marel er leiðandi á sínu sviði á heimsvísu og byggir þar meðal annars á dönsku hugviti og verkfræðiþekkingu.

Með kaupum sínum á öflugum dönskum fyrirtækjum, meðal annars Carnitech árið1997, og Scanvaegt árið 2006, öðlaðist félagið betra aðgengi að alþjóðlegu sölu og þjónustuneti og markaðshlutdeild sem stuðlaði að frekari vexti félagsins.

Forsætisráðherra Danmerkur heimsækir höfuðstöðvar Marel


Marel gestgjafi samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem og framtíðarnefndar

Á dagskrá heimsóknar forsætisráðherra Danmerkur til Marel var sameiginlegur fundur framtíðarnefndar Alþingis og samráðsvettvangs um aukna hagsæld. Marel var stoltur gestgjafi fundarins þar sem Árni Oddur var fundarstjóri.

Gestir fundarins voru meðal annars Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, Smári McCarthy, þingmaður og formaður framtíðarnefndar, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og formaður samráðsvettvangs og aðrir fulltrúar úr ríkisstjórn Íslands, stjórnmálum og íslensku atvinnulífi.


Verkkunnátta heiðruð

Heimsókninni lauk þegar Árni Oddur afhenti forsætisráðherra Dana gjöf; þrjá handsmíðaða íslenska fugla sem Úlfar Sveinbjörnsson handverkslistamaður smíðaði.

Líkt og Marel, hafa fuglar úr smiðju Úlfars ferðast vítt og breytt um heiminn og skreyta starfstöðvar félagsins um heim allan.

Forsætisráðherra Danmerkur heimsækir höfuðstöðvar Marel