Thank you

*

Vörur og vörusýningar

Fiskvinnsla í stafrænum heimi

Whitefish ShowHow 2018

Marel hélt Whitefish ShowHow í Kaupmannahöfn fjórða árið í röð og tók að þessu sinni á móti rúmlega 150 gestum frá 26 löndum. Gestirnir fengu að kynnast því hvernig tækninýjungar geta bætt árangur en boðið var upp á fyrirlestra, sýndarveruleika (VR) og aukinn veruleika (AR) auk fjölbreyttra vinnslulausna.

Nýsköpun, gagnasöfnun og mikilvægi þekkingar

Í upphafi dags settu gestafyrirlesarar tóninn með því að fjalla um stafræna framþróun í fiskvinnslu. Fyrirlestararnir voru þeir Dag Sletmo, varaforseti og greinandi sjávarútvegssviðs hjá Norska fjármálafyrirtækinu DNB, og Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf.

Dag Sletmo fjallaði um reynslu norskra útgerða sem hafa nú þegar byrjað að setja nema á fiskiskip til þess meðal annars að skilja breytileika fiskistofna og auka nýtingu auðlinda.

Þá dreymir um að setja nema á öll norsk fiskiskip, það hefði mikinn fjárhagslegan ávinning.

– Dag Sletmo, varaforseti og greinandi sjávarútvegssviðs hjá DNB
 

Pétur Pálsson fjallaði um tækifærin sem felast í stafrænum lausnum fyrir fiskiðnað en hann sagði meðal annars að sjávarúvegurinn væri á merkari tímamótum en nokkru sinni fyrr.

Ein ástæða þess er að nú tekur mun styttri tíma en áður að vinna fisk heldur en áður var. „Nú er búnaður til staðar sem gerir þér kleift að fullvinna fisk á 10 mínútum, þó hann sé gerður að fjölbreyttum lokaafurðum,“ sagði hann.

Pétur sagði jafnframt að kröfur markaðarins væru sterkur hvati til að koma fram með nýjungar í framleiðslu og að ítarleg þekking hefði aukið vægi.

Nú getur þú mælt stærð og eiginleika fisks um leið og hann er veiddur sem auðveldar skipulagningu vinnslunnar þegar honum er landað.

– Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf.
 

Það að vita með tveggja daga fyrirvara á hverju er von inn í vinnsluna auðveldar það að uppfylla pantanir og búa þannig um hnútana að hráefnisnýting verði sem allra best. Þetta gefur fiskveiðum einnig aukið sóknarfæri í samkeppni við afurðir úr fiskeldi.

Þegar kemur að samfélagsábyrgð sagði Pétur að tækniframfarir stuðluðu ekki aðeins að auknu atvinnuöryggi starfsfólks í heimabygð heldur jafnframt að störfin væru fjölbreyttari en áður.

Vísir hefur lengi verið í fararbroddi í tæknivæðingu í íslenskum sjávarútvegi og nú búa þau að 20 ára gagnagrunni um veiðarnar. Gögnin hjálpa til við ákvarðanatöku, til þess að ná réttu hlutfalli tegunda á hverjum árstíma, sem auðveldar nýtingu þeirra allra, auk þess að vera mikilvæg til að sýna fram á rekjanleika fisksins. Pétur dró saman megin inntakið með því að segja: „Þeim mun betri upplýsingar sem þú hefur, því betri ákvarðanir geturðu tekið.“

Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri Marel í fiskiðnaði, lagði áherslu á hvernig Marel sér sitt hlutverk í tæknibreytingum.

Við lítum á okkur sem samstarfsaðila í stefnumörkun – við höfum vinnslukunnáttuna, tæknibúnaðinn og Innova hugbúnaðinn – og okkar hlutverk, í samvinnu við ykkur, viðskiptavini okkar, er að ná fram fullum ábata stafrænnar þróunar.

– Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri Marel í fiskiðnaði


Kynningar á framsæknum lausnum

Tæki og lausnir voru sýnd í vinnslu allan daginn í sýningarsalnum og boðið var upp á kynningar á vinnslulausnum eins og FleXicut línunni sem sýnd var með ýmsum viðbótum, m.a. tvennskonar róbot pökkun á afurðum; í frauðkassa annars vegar og í neytendapakka hins vegar.

Í fyrsta sinn teygðu lausnirnar sig nú einnig upp á aðra hæð hússins þar sem fundarsal var breytt í Innova stjórnstöð. Þar var sýnt hvernig Innova gerir vinnslustjórnendum kleift að vakta og stýra tækjunum í vinnslusalnum. Innova fyrirlestrar voru jafnframt haldnir í sama sal og áheyrendum kynnt hvernig hugbúnaðurinn gefur þeim færi á að auka stjórn á vinnslunni.

Fleiri fyrirlestrar voru haldnir eftir hádegið en þar má nefna erindi um sjálfvirka gæðaskoðun, árangursríkar lausnir fyrir pökkun í neytendapakkningar og hvernig er hægt er að sem mest út úr FleXicut þjónustu planinu.

Í pallborðsumræðum í lok dags urðu til líflegar umræður um hvernig hvítfisk markaðurinn mun þróast en þeir sem í pallborðinu sátu ræddu ekki einungis tækniþróun heldur einnig hvernig fólk bregst við slíkri þróun. Við þetta tilefni hafði Pétur Pálsson á orði; „sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að byggja upp menningu innanhúss hjá sér þar sem tækninni er tekið opnum örmum“.