Thank you

*

Fjárfestafréttir

Afkoma annars ársfjórðungs

26. júlí 2017

Marel kynnir afkomu annars ársfjórðungs 2017.

Sjá einnig: Fréttatilkynning um Sulmaq

Allar upphæðir í evrum

Annar ársfjórðungur 2017 – Sterk pantanastaða og góður rekstur, seinkun í tekjum vegna tímasetninga stærri verkefna

  • Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2017 námu 244,0 milljónum evra [2F 2016: 264,2m].
  • EBITDA á öðrum ársfjórðungi 2017 var 44,2 milljónir evra sem er 18,1% af tekjum [2F 2016: EBITDA 48,4m, 18,3% af tekjum].
  • EBIT* á öðrum ársfjórðungi 2017 var 35,9 milljónir evra sem er 14,7% af tekjum [2F 2016: EBIT* 39,7m, 15,0% af tekjum].
  • Hagnaður á öðrum ársfjórðungi 2017 nam 18,6 milljónum evra [2F 2016: 22,1m]. Hagnaður á hlut var 2,62 evru sent [2F 2016: 3,09 evru sent].
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 61,2 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi 2017 [2F 2016: 43,7m]. Skuldahlutfall var x2,15 (nettó skuldir/EBITDA) við lok annars ársfjórðungs 2017.
  • Pantanabókin stóð í 418,9 milljónum evra við lok annars ársfjórðungs 2017 samanborið við 390,3 milljónir evra við lok fyrsta ársfjórðungs 2017 [2F 2016: 306,5m].

Markaðsaðstæður eru góðar og samkeppnisstaða Marel er sterk. Pantanir á öðrum ársfjórðungi 2017 námu 273 milljónum evra. Pantanabókin stóð í 419 milljónum evra samanborið við 307 milljónir evra fyrir annan ársfjórðungs 2016. Í byrjun þriðja ársfjórðungs var stærsta pöntun í sögu Marel tryggð með samningi við Costco og Lincoln Premium Poultry í Bandaríkjunum um nýja hátækni kjúklingaverksmiðju.

Tekjur annars ársfjórðungs 2017 námu 244 milljónum evra og EBIT* var 14,7%. Dreifing á milli vöruflokka ásamt tímasetningu stærri verkefna veldur því að bókfærðar tekjur eru lægri í öðrum ársfjórðungi 2017 en búast má við á næstu misserum. Sjóðstreymi frá rekstri er sterkt og nam 61 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi 2017. Skuldahlutfallið er x2,15 EBITDA við lok annars ársfjórðungs 2017. Á stjórnarfundi 26. júlí var heimild veitt til stjórnenda til að kaupa eigin bréf fyrir allt að 15 milljónum að nafnvirði. Hlutirnir eru ætlaðir sem endurgjald í mögulegum fyrirtækjakaupum.

Tekjur fyrstu sex mánuði ársins 2017 námu 496,5 milljónum evra og eru svipaðar pro forma tekjum fyrstu sex mánaða ársins 2016. Pantanir fyrstu sex mánaða ársins 2017 námu 565,9 milljónum evra samanborið við pro forma 484,9 milljónir evra á fyrstu sex mánuðum ársins 2016. Pantanabókin við lok fyrstu sex mánaða ársins 2017 var 418,9 milljónir evra samanborið við 307 milljónir evra fyrir sama tímabil ársins 2016.

Marel hefur samþykkt að kaupa Sulmaq, brasilískan framleiðanda búnaðar fyrir fyrsta stig kjötvinnslu. Markmiðið er að styrkja stöðu Marel í Suður-Ameríku og tryggja betri aðgang að stækkandi vaxtarmörkuðum fyrir nauta- og svínakjöt. Árlegar tekjur Sulmaq nema um það bil 25 milljónum evra. Búist er við að kaupin gangi formlega í gegn á þriðja ársfjórðungi 2017 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Til skemmri tíma litið munu kaupin ekki hafa efnisleg áhrif á rekstrarniðurstöðu Marel.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Tekjur annars ársfjórðungs námu 244 milljónum evra með nærri 15% EBIT. Dreifing á milli vöruflokka ásamt tímasetningu stærri verkefna veldur því að bókfærðar tekjur eru lægri í öðrum ársfjórðungi 2017 en búast má við á næstu misserum. Tekjur og rekstrarhagnaður fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2017 eru sambærilegar og fyrir sama tímabil á síðasta ári.

Samkeppnisstaða Marel er sterk og markaðsaðstæður eru góðar. Vöxtur pantana fyrstu sex mánuði ársins var 17% á milli ára. Í byrjun þriðja ársfjórðungs tryggði okkar frábæra teymi stærstu pöntun í sögu Marel með samningi við Costco og Lincoln Premium Poultry um hátækni kjúklingaverksmiðju í Bandaríkjunum. Marel, í samstarfi við viðskiptavini sína er að umbreyta matvælaframleiðslu með því að gera viðskiptavinum sínum kleift að framleiða hágæða matvæli á hagkvæman og sjálfbæran hátt.

Við erum einnig að styrkja stöðu okkar í Suður-Ameríku með kaupum á Sulmaq sem hefur verið í fararbroddi í framleiðslu á búnaði fyrir fyrsta stig kjötvinnslu í þessum heimshluta. Undanfarna tvo áratugi hefur Marel notið mikillar velgengi í kjúklinga- og fiskiðnaði í Suður-Ameríku og nú erum við að undirbúa okkur fyrir frekari vöxt á þessu mikilvæga 600 millljóna manna markaðssvæði. “

Marel undirritar kaup á Sulmaq

Marel hefur samþykkt að kaupa Sulmaq, brasilískan framleiðenda búnaðar fyrir fyrsta stig kjötvinnslu. Markmiðið er að styrkja stöðu Marel í Suður-Ameríku og tryggja betri aðgang að stækkandi vaxtarmörkuðum fyrir nauta- og svínakjöt.

Sulmaq sem var stofnað árið 1971 er leiðtogi í framleiðslu á búnaði fyrir fyrsta stig kjötvinnslu í Suður-Ameríku. Sulmaq er staðsett í Rio Grande do Sul í suðurhluta Brasilíu. Starfsmenn fyrirtækisins eru um það bil 400 talsins. Vöruframboð Sulmaq samanstendur að mestu af svína- og nautgripa sláturlínum og tækjum til skurðar og úrbeiningar auk flutningstækja. Lausnir og tæki frá Sulmaq er að finna vítt og breitt um Suður-Ameríku og hefur fyrirtækið sterk og góð tengsl við viðskiptavini sína í álfunni. Árlegar tekjur Sulmaq nema um það bil 25 milljónum evra.

Síðustu ár hefur Marel, með innri vexti og yfirtökum skilað góðum vexti. Vöxturinn hefur ekki síst náðst með kaupum á þekktum alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við MPS, Stork og Scanvaegt. Með fyrirhuguðum kaupum á Sulmaq styrkir Marel stöðu sína sem leiðandi framleiðandi á háþróuðum heildarlausnum til vinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Marel er með þessu skrefi betur í stakk búið fyrir frekari vöxt á þessu mikilvæga markaðssvæði sem Suður-Ameríka er. Brasilía ein og sér er annar stærsti framleiðandi nautakjöts á heimsvísu og þriðji stærsti framleiðandi kjúklingakjöts.

Búist er við að kaupin gangi formlega í gegn á þriðja ársfjórðungi 2017 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Ekki er þörf á samþykki samkeppnisyfirvalda. Stjórnendur Sulmaq: Fernando Roos, Henrique Roos og Julio Roos munu gegna mikilvægu hlutverki í framtíðaruppbyggingu Marel og munu þeir áfram gegna sínum störfum hjá Sulmaq. Þegar formlega verður gengið frá kaupunum hyggjast þeir nota hluta kaupverðsins í að fjárfesta í Marel. Sulmaq verður fyrst um sinn rekið sem sjálfstæð eining með stuðningi Marel á meðan fyrirtækin munu í sameiningu vinna að áætlun um hvernig kraftarnir munu nýtast sem best til að uppfylla þarfir viðskiptavina og markaðarins til framtíðar.

Horfur

Marel stefnir á 12% árlegan meðalvöxt tekna næstu 10 árin.

  • Marel gerir ráð fyrir að markaðsvöxtur nemi 4-6% á næstu árum
  • Marel ætlar að vaxa hraðar en markaðurinn með sterkri markaðsstöðu og nýsköpun
  • Áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi getur stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjuvöxtur

Áætlaður vöxtur verður ekki línulegur og veltur á þeim tækifærum sem í boði eru hverju sinni og hagsveiflum. Gera má ráð fyrir því að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Kauphallardagur Marel í Danmörku

Marel heldur kynningarfund með fjárfestum og markaðsaðilum í sýningarhúsi sínu Progress Point í Kaupmannahöfn þann 2. nóvember 2017. Frekari upplýsingar og skráning verða kynnt á heimasíðu félagsins marel.com á komandi vikum.

* Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtöku á MPS.

Pro forma rekstrarniðurstaða er samanlagður rekstur Marel og MPS. Pro forma tölur auðvelda samanburð á undirliggjandi rekstri á milli tímabila.

Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi tekur aðeins til helstu þátta uppgjörsins en uppgjörstilkynning í fullri lengd á ensku er aðgengileg á heimasíðu Marel. Þar er meðal annars að finna lykiltölur og yfirlit yfir markaði félagsins.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.