Thank you

*

Fjárfestafréttir

Afkoma annars ársfjórðungs 2018

25. júlí 2018

Marel kynnir afkomu annars ársfjórðungs 2018.

Allar upphæðir í evrum

Annar ársfjórðungur 2018 – Kröftugur vöxtur í tekjum og rekstrarafkomu

 • Pantanir á öðrum ársfjórðungi námu 291,1 milljónum evra (2F17: 272,7m).
 • Tekjur námu 296,7 milljónum evra (2F17: 244,0m).
 • EBIT* nam 43,2 milljónum evra (2F17: 35,9m), sem var 14,6% af tekjum (2F17: 14,7%).
 • Hagnaður nam 29,5 milljónum evra (2F17: 18,6m) og hagnaður á hlut (EPS) var 4,31 evru sent (2F17: 2,62 evru sent).
 • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 56,4 milljónum evra (2F17: 61,2m).
 • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x1,8 í lok júní samanborið við x2,0 í árslok 2017, markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3.
 • Pantanabókin stóð í 523,2 milljónum evra við lok fjórðungsins (árslok 2017: 472,3m).

Töluvert ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Við höldum góðum takti frá síðasta uppgjöri og skilum mettekjum og stöðugri rekstrarframlegð á öðrum ársfjórðungi. Á fyrstu sex mánuðum ársins var 18% vöxtur í bæði tekjum og EBIT miðað við sama tímabil í fyrra. Hugvit og samheldni okkar 5.500 starfsmanna, ásamt góðu samstarfi við viðskiptavini og birgja, eru forsenda þess að ná fram þeim mikla innri vexti sem við gerum ráð fyrir í ár. Pantanabókin er sterk og kröftugt sjóðstreymi styður við áframhaldandi fjárfestingar til frekari vaxtar og verðmætasköpunar.

Það er okkur ánægja að tilkynna að Marel hefur náð samkomulagi um kaup á MAJA. MAJA er þýskur framleiðandi á búnaði fyrir matvælavinnslu, með megináherslu á kjötiðnað og klakavélar fyrir varðveislu og framsetningu á ýmsum matvælum. Í gegnum samstarf MAJA og Sulmaq í Brasilíu síðastliðin ár, höfum við fengið innsýn í öfluga vöruþróun og góðan rekstur þessa fjölskyldufyrirtækis. Innan fyrirtækisins starfa um 200 starfsmenn og eru árlegar tekjur þess um 30 milljónir evra. Áætlað er að kaupin gangi í gegn síðar á þessu ári.

Aðstæður á mörkuðum Marel hafa verið óvenju góðar síðustu misseri. Við gerum ráð fyrir því að nú hægist á vexti markaðar og færist þannig nær meðalvexti síðustu ára. Með öflugri markaðssókn og nýsköpun, ásamt kaupum á fyrirtækjum, hyggst félagið vaxa umfram almennan markaðsvöxt til lengri tíma.“

Horfur

Í ljósi rekstrarniðurstöðu á fyrri hluta ársins og stærð pantanabókar, gerir félagið ráð fyrir kröftugum innri tekjuvexti og góðri rekstrarafkomu fyrir árið 2018. Reikna má með minni vexti á þriðja ársfjórðungi en öðrum fjórðungum ársins vegna samsetningu pantana og árstíðabundinna þátta.

Markaðsaðstæður hafa verið einstaklega góðar undanfarna fjórðunga en horft er til þess að þær séu að færast nær meðalvexti síðustu ára. Til lengri tíma gerir Marel ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% að jafnaði á ári.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

 • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
 • Áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi getur stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
 • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur veltur á hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og verður því ekki línulegur. Gera má ráð fyrir breytilegri afkomu milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi.

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Fjárfestafundur

Fimmtudaginn 26. júlí 2018 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur með markaðsaðilum og fjárfestum. Þar munu Árni Oddur Þórðarson, forstjóri og Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri, kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri.

Kynningarfundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagsins, Austurhrauni 9 í Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.

Fundinum verður einnig vefvarpað á marel.com/webcast.

Fjárhagsdagatal

 • 3F 2018 – 31. október 2018
 • 4F 2018 – 6. febrúar 2019

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veitir fjárfestatengill félagsins, Tinna Molphy í gegnum netfangið tinna.molphy@marel.com og í síma 563 8603.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

* Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA).

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.